Syndney vs. Þórshöfn

Að ruglast á Syndey og Sydney er hálfu verra en að ruglast á Þórshöfn og Þórshöfn, það er þó innan sömu heimsálfu.

Í fyrrasumar stóðu uppi vegalausir á Akureyri ferðalangar frá USA. Ferðinni var heitið til Þórshafnar... í Færeyjum en ekki voru þau sterkari í landafræði en svo að þegar þau skipulögðu og bókuðu ferðina á netinu var stefnan tekin á Þórshöfn á Langanesi... létt verk var að leiðrétta þann kúrs.


mbl.is Rugluðust á Ástralíu og Kanada
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Könguló, könguló vísaðu mér á berjamó...

Bláberjasulta í fæðinguÍ gær lögðum við, ég, bóndinn og fóstursonurinn land undir fót og fórum í berjamó. Höfðum heyrt tröllasögur af stórkostlegri berjasprettu og ætluðum ekki að láta okkar eftir liggja (þ.e. berin) og fórum því af stað með stórkostlegar væntingar um að koma til baka með fullar fötur af stórum og safaríkum bláberjum. Fyrir hugskotsjónum liðu hilluraðir af bláberjasultukrukkum, frosin ber í frystinum tilbúin til að skreyta heimagerða ostaköku... Fyrst lá leiðin í átt að Nesjavöllum en fljótlega keyrðum við inn í rigningu og þar sem það hefur ekki þótt góð vísindi að týna ber í bleytu snérum við snarlega við og fórum þess í stað upp í Heiðmörk. 

Þau stinga enn í augu, sárin sem urðu á náttúrunni í Rauðhólum við efnistöku sem þar fór fram og blasa við þegar við ekið er þar framhjá. Við fórum nokkuð langt inn í Heiðmörkina, fundum okkur bílastæði og hófum berjaleitina. Hún gekk ekki vel til að byrja með, bláberin ennþá að mestu græn eða svo smá að maður fékk samviskubit af að slíta þau af lynginu. Við gengum lengra inn í skóginn og héldum leitinni áfram, en berin hvorki stækkuðu né urðu þroskaðri við það. 

Við tókum hlé á leitinni og drukkum okkar kaffi og höfðum það í raun alveg yndislega gott, því stundum er það ekki "áfangastaðurinn sem skiptir máli, heldur að njóta ferðarinnar", svo maður taki nú einn frasann úr ferðaauglýsingu... Þegar upp var staðið höfðum við náð í nokkur ber, en mikið var af grænjöxlum innan um (eða "vísirum" eins og Þingeyingurinn minn kallar það) og smælki. Við sorteruðum úr bestu berin þegar heim var komið og fengum okkur þau í eftirrétt, með skyri, en afgangurinn fór í suðu og breyttist við efnahvörf í efnilega berjasultu. 

Þetta var yndislegur dagur, þó uppskeran hafi ekki verið í neinu samhengi við væntingarnar en þegar upp er staðið er það samveran og útivistin sem er kannski það sem hefur gefið mestu eftirtekjuna af sér. 


Skarfakál - Cochlearis officinalis

SkarfakálÞá er að halda áfram með þennan fróðleik um jurtir sem mig langar að koma á framfæri og vonandi er ekki lesendum til mikils ama (en þá er bara að sleppa að lesa..). Umfjöllunarefnið mitt í þetta sinn er skarfakál.

Skarfakál er af krossblómaætt og vex víðast hvar um landið, aðallega við ströndina en finnst þó stöku sinnum til fjalla en er þá mjög smávaxið. Jurtin sem er tvíær myndar fyrsta árið dökkgræn hjartalaga blöð, seinna árið myndast greinóttur blómstöngull sem ber hvít blóm. Eftir að blómin falla standa eftir hnöttótt fræ sem falla af í tveimur hlutum þegar þau hafa náð þroska. 

Skarfakálið er mjög rík af c-vítamíni og löngu áður en menn þekktu vítamín læknaði íslensk alþýða skyrbjúg og ýmsa aðra sjúkdóma með skarfakáli.

Minnst er á jurtina í fornum bókum, s.s. Grettissögu, í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns og í ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar. Samkvæmt heimildum var algengara hérna fyrr á öldum að skarfakál væri notað til manneldis við Breiðafjörð en annars staðar á landinu. 

Í bókinni - Grænmeti og ber allt árið - 300 nýjir jurtaréttir - eftir Helgu Sigurðardóttur frá árinu 1941 segir m.a: „Skarfakál [Cochlearia officinalis] var fyrrum talið eitt hið óbrigðulasta meðal við skyrbjúg, og var tröllatrúin svo mikil á ágæti þess, að oft var sjúkt fólk sent langar leiðir, til að vera nokkurn tíma þar sem skarfakálið var fáanlegt og var lækningamáttur þessarar jurtar svo mikil, að fólkið var heilbrigt eftir nokkra daga. Nú hafa vísindin sannað ágæti skarfakálsins, þar sem Höskuldur Dungal læknir hefir rannsakað það, og birt með leyfi Nielsar Dungals prófessors niðurstöður af rannsóknunum, sem birzt hafa í læknablaðinu: C-vítamín. Mg. pr. gramm. Skarfakál, blöð 1,00 - 1,65, Skarfakál stönglar 0,60. Um skarfakálið sannast það hér, sem löngu var vitað, að mikið C-fjörvi hlyti að vera í því. En að það reyndist svo auðugt sem tölurnar sýna, hefði maður samt varla búizt við... “. 

Það er ljóst að Skarfakál hefur verið mikilvægur c-vítamín gjafi fyrir landann í gegnum aldirnar án þess að fólk hafi gert sér fyllilega ljóst í hverju það fólst heldur var þetta nokkuð sem reynslan kenndi og fólk lærði af.

Núna eru til einfaldari og fljótlegri leiðir til að fá nægjanlegt c-vítamín í fæðunni en ef einhverjum langar að prufa þessa jurt þá hefur hún biturt bragð, svolítið í líkingu við karsa eða piparrót. Hægt er að nota skarfakál í salöt, eggjaköku, sósur o.s.frv. Best er að safna skarfakáli fyrri hluta sumars en þá eru blöðin safaríkust. 

 

 


Valdið er vandmeðfarið

Hvað er það sem kemur valdamönnum í upplýstu þjóðfélagi til að gera tilraunir með varnarlaus börn? Ef rétt reynist þá hafa Danir hegðað sér þarna eins og versta nýlenduherraþjóð. Vonandi bera þeir gæfu til að rannsaka þetta til hlítar og rétt hlut þeirra sem brotið var á að svo miklu mæli sem það er unnt. 
mbl.is Grænlensk börn sem tilraunadýr
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ginkgo Biloba - Musteristré

Ginkgo BilobaTíminn líður hratt og mikið að gera á stóru heimili. Ég ætlaði að vera löngu búin að koma þessari samantek um Ginkgo Biloba á prent, en betra er seint en aldrei. Hérna kemur örlítil samantekt um þessari öldnu plöntu.  

Talið er að Ginkgo Biloba plantan sé elsta plantan sem fyrir finnst. Fyrir ca. 200 milljónum árum náði hún mestri útbreiðslu, en þá óx hún nánast um alla jörð. Hún er mjög harðger og dæmi um það er að það fyrsta sem óx upp eftir atómsprengjuna í Hiroshima var Ginkgo Biloba - Musteristréð. Ginkgo tréð er ýmist karl- eða kvenkyns. Blóm karl-trésins vex á ca 3 cm löngum rekklum sem falla af fljótlega eftir blómgun. Blóm kven-trésins þróast hins vegar yfir í ávöxt en kjöt þess er óætt og lyktar mjög illa. 

Notkun á Ginkgo Biloba hefur aðallega verið við truflunum í blóðrásarkerfinu. Talið er að plantan hafi blóðþynnandi áhrif, æðavíkkandi áhrif og víkki út berkjur. Því gæti hún haft gagnleg áhrif á blóðrásartruflanir í heila (dementiu), kalda fætur vegna æðaútvíkkandi áhrifa og astma.

Ráðlagðir skammtar fyrir 50 ára og eldri er 80-120 mg á dag af staðlaðri extrakt.

En eins og með lyf þá geta lækningajurtir haft aukaverkanir, milliverkanir og víxlverkanir. Algengustu aukaverkanir af Ginkgo Biloba eru meltingartruflanir, höfuðverkur og ofnæmisútbrot. Milliverkanir eru ekki þekktar en víxlverkanir gætu verið við blóðþynningarlyf. Ófrískar og mjólkandi konur ættu ekki að nota jurtina.    


Jurtir til lækninga

Í gegnum tíðina hefur mannkynið notað jurtir til að reyna að lækna eða koma í veg fyrir sjúkdóma. Elstu heimildir um grasalækningar eru frá Kína og Egyptalandi og eru um 5000 ára gamlar. Kringum árið 2700 f.kr. gaf kínverski keisarinn Shen Nung út heimildaritið, Pen Tsao, með 365 uppskriftum (forskriftum) sem sumar eru enn notaðar.

Við söfnum jurta til lækninga þarf að gæta ýtrustu varkárni því auðvelt er að taka eitraðar plöntur í misgripum. Margar jurtir innihalda mikið magn virkra efna og eru því vandmeðfarnar. Ennfremur eru dæmi um víxlverkanir milli jurtalyfja og hefðbundinna lyfja og fæðu og eiturverkanir vegna ofskömmtunar. Ljóst er að söfnun, meðhöndlun og skömmtun á jurtalyfjum er vandmeðfarin og krefst mikillar þekkingar.

Sjúkdómar sem einstaklingar reyna helst að lækna með hjálp náttúru/jurtalyfja eru oft á tíðum sjúkdómar þar sem hefðbundnar læknisaðferðir hafa ekki reynst árangursríkar, s.s. við getuleysi, svefnleysi og krabbameini. Mörg náttúru/jurtalyf geta að öllum líkindum bætt heilsu fólks á meðan þau eru tekin en um leið getur einstaklingurinn farið á mis við hefðbundna lækningu.

Næstu daga hef ég hugsað mér, eftir því sem tími vinnst til, að setja inn fróðleiksmola um ýmsar jurtir.


 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband