Skarfakál - Cochlearis officinalis

SkarfakálÞá er að halda áfram með þennan fróðleik um jurtir sem mig langar að koma á framfæri og vonandi er ekki lesendum til mikils ama (en þá er bara að sleppa að lesa..). Umfjöllunarefnið mitt í þetta sinn er skarfakál.

Skarfakál er af krossblómaætt og vex víðast hvar um landið, aðallega við ströndina en finnst þó stöku sinnum til fjalla en er þá mjög smávaxið. Jurtin sem er tvíær myndar fyrsta árið dökkgræn hjartalaga blöð, seinna árið myndast greinóttur blómstöngull sem ber hvít blóm. Eftir að blómin falla standa eftir hnöttótt fræ sem falla af í tveimur hlutum þegar þau hafa náð þroska. 

Skarfakálið er mjög rík af c-vítamíni og löngu áður en menn þekktu vítamín læknaði íslensk alþýða skyrbjúg og ýmsa aðra sjúkdóma með skarfakáli.

Minnst er á jurtina í fornum bókum, s.s. Grettissögu, í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns og í ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar. Samkvæmt heimildum var algengara hérna fyrr á öldum að skarfakál væri notað til manneldis við Breiðafjörð en annars staðar á landinu. 

Í bókinni - Grænmeti og ber allt árið - 300 nýjir jurtaréttir - eftir Helgu Sigurðardóttur frá árinu 1941 segir m.a: „Skarfakál [Cochlearia officinalis] var fyrrum talið eitt hið óbrigðulasta meðal við skyrbjúg, og var tröllatrúin svo mikil á ágæti þess, að oft var sjúkt fólk sent langar leiðir, til að vera nokkurn tíma þar sem skarfakálið var fáanlegt og var lækningamáttur þessarar jurtar svo mikil, að fólkið var heilbrigt eftir nokkra daga. Nú hafa vísindin sannað ágæti skarfakálsins, þar sem Höskuldur Dungal læknir hefir rannsakað það, og birt með leyfi Nielsar Dungals prófessors niðurstöður af rannsóknunum, sem birzt hafa í læknablaðinu: C-vítamín. Mg. pr. gramm. Skarfakál, blöð 1,00 - 1,65, Skarfakál stönglar 0,60. Um skarfakálið sannast það hér, sem löngu var vitað, að mikið C-fjörvi hlyti að vera í því. En að það reyndist svo auðugt sem tölurnar sýna, hefði maður samt varla búizt við... “. 

Það er ljóst að Skarfakál hefur verið mikilvægur c-vítamín gjafi fyrir landann í gegnum aldirnar án þess að fólk hafi gert sér fyllilega ljóst í hverju það fólst heldur var þetta nokkuð sem reynslan kenndi og fólk lærði af.

Núna eru til einfaldari og fljótlegri leiðir til að fá nægjanlegt c-vítamín í fæðunni en ef einhverjum langar að prufa þessa jurt þá hefur hún biturt bragð, svolítið í líkingu við karsa eða piparrót. Hægt er að nota skarfakál í salöt, eggjaköku, sósur o.s.frv. Best er að safna skarfakáli fyrri hluta sumars en þá eru blöðin safaríkust. 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband